Endurbótum við húsið að Hverfisgötu 84 er lokið og unnið er við að koma því í sölu. Í húsinu eru tvær íbúðir á miðhæð og í risi. Á jarðhæð er atvinnuhúsnæði en þar var áður verslunin Varmá sem margir muna eftir.

Óhætt er að segja að engu hafi verið til sparað við endurbætur á húsinu en þær voru unnar í samvinnu við Minjastofnun og borgaryfirvöld. Hverfisgata 84 er hluti af fallegri húsaþyrpingu eldri húsa á svæði sem afmarkast af Laugavegi, Vitastíg, Hverfisgötu og nýrri göngugötu sem gerð verður milli Hverfisgötu og Laugavegs.

Við hlið Hverfisgötu 84 er að ljúka endurbótum á Hverfisgötu 86 sem einnig er mjög fallegt íbúðarhús. Unnið er við endurbætur annarra eldri húsa á svæðinu og er áætlað að þeim ljúki um næstu áramót.

Hjá byggingaraðilum gengur þessi þyrping eldri húsa undir nafninu Vitaþorp. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á Vitaborg.is og hjá fasteignasölunum Mikluborg, Eignamiðlun og Landmark.