Sagan

line6

Um og eftir aldamótin 1900 þegar fyrstu húsin á þessu svæði voru byggð tók Reykjavík mikinn vaxtakipp. Fólksflótti úr sveit í borg var mikill og fjölgaði íbúum úr 5.800 í 14.200 á árunum 1900-1915. Talað var um að á hverju ári hafi bæst við íbúatöluna um 1000 manns allt til ársins 1945 en þá tók við nýr vaxtakippur og fjöldi aðfluttra varð enn meiri. Algengt var að aðflutt verkafólk reisti sjálft íbúðarhús sín en einnig var algengt að iðnaðarmenn byggðu húsin en seldu þau svo öðrum. Svo er að öllum líkindum um nokkra sem í húsaskránni eru skráðir fyrstu eigendur húsa.

Byggðin í Reykjavík var ekki skipulögð á þessum fyrsta áratug aldarinnar, heldur tóku smátt og smátt að myndast húsaraðir sem teygðu sig í austur og vestur út frá Kvosinni. Á þeim fimm reitum sem hér eru til umfjöllunar liggja fjórir að Laugavegi. Laugavegurinn skipar sérstakan sess í byggingar- og verslunarsögu Reykjavíkur. Gatan er ein af aldamótagötum bæjarins og var hún nær fullbyggð inn að Barónstíg árið 1905. Fram að þeim tíma var aðallega íbúðarbyggð við götuna en fljótlega eftir það var farið að versla við Laugaveginn. Húsum var þá oft breytt þannig að verslanir voru starfræktar í kjallaranum. Síðar var jarðhæð húsanna tekin undir verslunarhúsnæði eða timburhúsunum var lyft og steypt undir þau jarðhæð, sem varslað var í, t.d. Laugavegur 55 (Von).

Haldið hefur verið fram að það hafi verið liður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga er íslenskir kaupmenn hófu að byggja verslunarhús við Laugaveg, sem andsvar við verslun útlenskra selstöðukaupmanna í Kvosinni. Nú er Laugavegurinn sérstaklega þó neðan (vestan) við þá reiti sem hér um ræðir. Á árunum 1960 til 1980 voru mörg af gömlu timburhúsunum sem þar stóðu rifin og ný stór verslunar- og skrifstofuhús byggð í staðinn. Mesta endurnýjun húsa á þessu svæði hefur verið við þessa elstu götu þess.

Hverfisgata var upphaflega aðalstígurinn í Skuggahverfi sem var óskipulagt og einangrað hverfi tómthúsbýla sem reist voru á 19. öld. Hverfisgata dregur nafn sitt af þessu hverfi og upphaflega kölluð Skuggahverfisgata. Eftir að heimild fékkst með lögum árið 1890 til að tún landshöfðingjans (áður stiftamtmanns), Arnarhólstúnið yrði skert, var gatan framlengt niður að Lækjargötu. Fyrir þann tíma voru hús við götuna tölusett frá Smiðjustíg en tölusetningu húsa var breytt eftir að gatan var lengd.

NÚNA Í FORTÍÐINNI

Fyrst byggðist sá hluti Hverfisgötu sem liggur milli Vatnsstígs og Vitastígs en síðar var gatan lengd að Klapparstíg. Byggð við Hverfisgötuna hófst fyrir alvöru upp úr aldamótum en fyrir það stóðu þar nokkrir torf- og steinbæir. Árið 1911 voru sett lög í Reykjavík um holræsi og gangstéttar og var fyrsta steinlímda hellulagða gangstéttin lögð upp Hverfisgötu árið 1909. Gatan hafði þótt ill yfirferðar eins og sagt er í Vísi árið 1912:

„Hvað eiga þessar holur og gjótur, forarhaugar og grjóthrúgur að vera lengi á götunni, til að meina mönnum og skepnum frjálsa umferð um hana? Því heita má að hún sje ófær öllum nema þeim, sem fara í loftinu og það jafnvel um albjartan daginn, hvað þá að kveldi, þegar götuljósin loga ekki betur en þaugera með köflum... Fyrir skömmu... ætluðu ferðamenn að reka 50-100 sauðkindur niður í bæ, eftir Hverfisgötunni, en urðu frá að hverfa. Þótti gatan svo óþverraleg, að þeir kusu heldur að snúa ofan á Lindargötu þótt krókur væri.“

Árið 1913 urðu umræður í bæjarstjórn um þá tillögu að breyta nafni Hverfisgötu í Skúlaskeið. Tryggvi Gunnarsson lýsti þá yfir að betur færi á því að gatan yrði nefnd Leggjabrjótur ef á annað borð ætti að breyta um nafn. Haustið 1924 var skýrt frá því í einu dagblaðanna að Hverfisgatan sé svo blaut og ill yfirferðar innan til að bílstjórar telji hana vera helsta farartálmann á leiðinni austur fyrir fjall.

Með tímanum týndu timburhúsin við Hverfisgötuna tölunni líkt og gerðist við Laugaveg og í stað þeirra voru byggð hærri hús úr steini, sérstaklega sunnan götunnar. Elsta steinsteypta húsið á þeim hluta Hverfisgötu sem hér er til umfjöllunar var byggt á árunum 1912-1913. Það er Hverfisgata 90 og er byggingarstíll þess í mörgu líkur byggingarstíl gömlu timburhúsanna. Upp frá því var steinsteypan ríkjandií byggingum húsa á þessu svæði og húsin ólík að gerð. Þó að upphaflega hafi við Hverfisgötu verið íbúðabyggð var þar einnig töluverð atvinnubyggð. Eftir því sem smásölum fjölgaði við Laugaveginn fjölgaði þeim einnig við Hverfisgötu.

NÚNA Í FORTÍÐINNI

Göturnar sem ganga þvert á Laugaveg og Hverfisgötu og hér um ræðir eru Frakkastígur, Vitastígur, Barónstígur og Snorrabraut. Auk þess eru hér til umfjöllunar nokkur hús við Skúlagötu.

Frakkastígur dregur nafn sitt af frönsku húsunum sem flutt voru frá Austurstræti árið 1901. Nokkru eftir aldamótin reistu frönsk útgerðarfélög spítala við Frakkastíg fyrir sjómenn sína og telja margir að nafnið komi þaðan. Svo er ekki.

Vitastígur fór að byggjast upp úr aldamótum þar sem áður stóðu Helgastaðir í Skuggahverfi, rétt austan við þar sem nú er Bjarnarborg. Við húsið var reistur lítill timburviti árið 1897 sem átti að leiðbeina skipum á leið inn Reykjavíkurhöfn. Þegar byggðin á þessu svæði fór að þéttast, urðu ljós frá húsunum til að villa um fyrir sjófarendum. Vitinn var þá lagður niður. Vitastígur 7 og 9 eru elstu húsin við þann hluta götunnar sem er til umfjöllunar hér. Austurhluti Vitastígs, á milli Hverfisgötu og Laugavegs er gott dæmi um götumynd sem hefur haldist lítið breytt frá upphafi.

Eins og áður sagði, var það franskur barón, sem reisti fyrista steinsteypta hús í Reykjavík og dregur Barónsstígur nafn sitt af því. Boillou hugðist starfrækja þar kúabú fyrir um 50 kýr. Húsinu var fundinn staður fyrir vestan Elsumýri, „norðan við fyrirhugaða Hverfisgötu“. Ekki reyndist þessi rekstur arðvænlegur og varð baróninn gjaldþrota skömmu eftir byggingu hússins.

Nafnið dregur gatan af þessu ævintýri barónsins. Þó að ekki hafi baróninum tekist ætlunarverk sitt má líta á Barónsfjósið sem tákn nýs tíma í Reykjavík þar sem atvinnutækifæri og iðngreinar voru að opnast. Síðar eignaðist Ásgeir Sigurðsson húsið og byggði þar nokkur til viðbótar og kallaði húsaþyrpinguna Sjávarborg. Húsin voru notuð til fiskgeymslu og vinnslu. Þau hafa nú verið rifin. Annars er það um sögu Barónsstígs að segja að nyrsti hluti hans upp að Laugavegi byggðist upp úr aldamótunum síðustu en aðrir hlutar götunnar síðar og þá í áföngum. Á vestari hluta Barónstígs, milli Hverfisgötu og Laugavegs, voru áður nokkur íbúðahús, en nú er ekkert hús eftir og lóðirnar hafa verið teknar undir bílastæði Landsbanka Íslands að Laugavegi 77.

Snorrabraut var til ársins 1948 hluti Hringbrautar sem átti að liggja hringinn í kringum Reykjavík. Hún er kennd við Snorra Sturluson.

Einn reitur í þessari umfjöllun nær niður að Skúlagötu, sem upphaflega var slóði sem myndaðist meðfram sjónum inn að fyrirtækjunum sem menn töldu að ættu heima utan byggðar. Þar risu m.a. sláturhús og járn- og trésmiðjur. Járnbrautin, sem lögð var úr Öskjuhlíð í tengslum við gerð hafnarinnar árið 1913, lá eftir Skúlagötu. Þegar teinarnir voru teknir upp var gatan eftir. Hún er kennd við Skúla Magnússon landfógeta, sem stundum hefur verið nefndur faðir Reykjavíkur

Árbæjarsafn

Reykjavík 1999

(C) Árbæjarsafn og Nikulás Úlfar Másson arkitekt, deildarstjóri húsadeildar Árbæjarsafns

Skýrslur Árbæjarsfns 74

Ritstjóri: Margrét Hallgrímsdóttir borgarminjavörður.

Vitaborg.

Með tilliti til sögu svæðinsins hefur Rauðsvík ehf. ákveðið að kynna verkefnið undir nafninu Vitaborg. Vitaborg vísar annarsvegar til vitans sem Vitastígur og Vitatorg taka nafn sitt frá, en vitinn stóð á lóðinni þar sem Hverfisgata 85 stendur nú. Vitaborg vísar hinsvegar til Bjarnaborgar sem stendur í hjarta hverfisins að Hverfisgötu 83 og er fyrsta fjölbýlishús landsins.

Bjarnaborg

Bjarni Jónsson snikkari, timburkaupmaður, fátækrafulltrúi og dannebrogsmaður byggði Bjarnaborg (nú Hverfisgata 83) árið 1902 og var það fyrsta eiginlega fjölbýlishúsið á Íslandi. Bjarni gróf sérstakan vatnsbrunn fyrir íbúa og er hann varðveittur í garði hússins. Bjarni seld húsið árið 1905 Þorvaldi Bjarnarsyni í skiptum fyrir býlið Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Húsið var síðar selt til Reykjavíkurborgar og eftir ýmsar eignabreytingar er það nú í eigu Félagsbústaða.

Austan Bjarnaborgar á lóðamörkum við Hverfisgötu 85 er mikill hlaðinn steinveggur sem áður var bakhlið á geymsluskúrum sem tilheyrðu húsinu. Síðar voru ýmis hús tengd þessum vegg að austanverðu. Öll þessi hús hafa síðan vikið ásamt geymsluskúrum Bjarnaborgar þannig að veggurinn stendur stakur eftir.

Vitinn

Vitinn sem Vitastígur og Vitatorg taka nafn sitt frá var reistur árið 1897 og gekk undir ýmsum nöfnum svo sem Helgustaðaviti eftir kotbýli sem hann stóð við. Hann var einnig nefndur Skuggahverfisviti, Reykjavíkurviti eða vitinn við Hverfisgötu. Vitinn stóð á lóð sem síðar varð Vitastígur 5 en er nú Hverfisgata 85. Vegna byggðar sem jókst við vitannn gátu ljós í gluggum húsa orðið villuljós og var vitinn aflagður árið 1929.

HAFA SAMBAND

atli@arcticlandmark.is

Sími: 551 7107

Allt myndefni birt með fyrirvara -
byggingarnefndarteikningar gilda

vitaborg_footer_logo

Vefvinnsla og hönnun: ONNO ehf.